Flýtilyklar
100% rafknúnir Volvo vöru- og flutningabílar 18-44 tonn komnir í sölu
Volvo Trucks hefur nú formlega opnað pöntunarkerfið fyrir rafknúna vöru- og flutningabíla sína, Volvo FH, Volvo FM og Volvo FMX, frá 18-44 tonnum. Fjöldaframleiðsla mun hefjast í haust og aukast smám saman. Rafmagnsbílarnir verða framleiddir í koltvísýringshlutlausu Tuve verksmiðjunni í Gautaborg til að byrja með.
„Þetta er einstakur áfangi fyrir Volvo Trucks. Mikill áhugi er hjá viðskiptavinum að leggja inn pantanir fyrir þessa frábæru vöru- og flutningabíla. Hingað til höfum við aðallega boðið viðskiptavinum og samstarfsaðilum að skrifa undir viljayfirlýsingar um kaup, en nú byrjum við að taka við staðfestum pöntunum, sem er stórt skref fram á við fyrir rafvæðingu vöru- og flutningabíla,“ segir Roger Alm, framkvæmdastjóri Volvo Trucks.
Árið 2021 tók Volvo Trucks við pöntunum, þar á meðal viljayfirlýsingum um kaup, fyrir meira en 1.100 rafknúna vöru- og flutningabíla í yfir 20 löndum.
Rafknúnar útgáfur millistærðar vöru- og flutningabíla allt að 18 tonnum af gerðunum Volvo FE, Volvo FL og Volvo VNR eru þegar í fjöldaframleiðslu. Stærstu markaðir fyrir rafknúna vöru- og flutningabíla Volvo í Evrópu eins og er eru Noregur, Svíþjóð og Þýskaland. Volvo Trucks er markaðsleiðandi í Evrópu fyrir þunga rafknúna vöru- og flutningabíla með 42% markaðshlutdeild árið 2021 og hefur einnig leiðandi stöðu í Norður-Ameríku.
„Það er greinilega að verða samkeppnisforskot að geta boðið upp á hljóð- og mengunarlausar flutningalausnir,“ segir Roger Alm.
Með alls sex rafbílagerðir í framleiðslu frá og með þessu ári, er Volvo Trucks með fullkomnustu rafmagnslínuna í vöru- og flutningabílum á heimsvísu, sem nær yfir allt frá vörudreifingu í borgum og bæjum og sorphirðu, til verktakabíla og svæðisbundinna flutninga. Markmið fyrirtækisins er að helmingur heildarsölu vöru- og flutningabíla verði rafknúinn árið 2030.