Flýtilyklar
Volvo rafmagnsvinnuvélar og Volvo rafmagnsvörubílar á losunarlægsta verkstað landsins
Blað var brotið þegar Brimborg lauk við framkvæmdir við öflugustu hraðhleðslustöð landsins á Flugvöllum 8 í Reykjanesbæ. Við framkvæmdirnar var lögð mikil áhersla á að nota eins mikið af rafknúnum vinnuvélum og rafknúnum ökutækjum eins og kostur var. Það tókst með miklum ágætum og er verkstaðurinn líklega sá losunarlægsti í sögunni.
Þær rafknúnu vélar og rafknúnu ökutæki sem notuð voru við framkvæmdir eru:
- Rafmagns fólksbílar frá Ford, Volvo, Polestar, Peugeot, Opel, Citroën og Mazda frá Brimborg og ýmsum verktökum og hönnuðum
- Opel rafmagns sendibílar frá Rafbox rafverktaka
- Volvo rafmagnsvinnuvél frá Rafbox rafverktaka
- Volvo rafmagnsvörubíll með rafknúnum Hiab krana frá Húsamiðjunni
- Volvo rafmagns dráttarbíll í efnisflutninga frá Ellert Skúlasyni
- Sany rafmagns steypubíll frá Steypustöðinni
- Volvo rafmagns dráttarbíll í malbiksflutninga frá Hlaðbæ-Colas
Verkefnið sýnir að möguleiki er að nota rafmagns atvinnubíla og rafmagnsvinnuvélar í meira mæli en áður á verkstöðum með tilkomu þess mikla úrvals rafknúinna atvinnubíla og tækja sem Veltir og Brimborg bjóða upp á frá sínum fjölmörgu birgjum.
Mikill ávinningur af rafmagni á atvinnubíla og vinnuvélar
Með orkuskiptum í þungaflutningum og í verklegum framkvæmdum færumst við nær markmiði Íslands í að draga úr losun koltvísýrings frá vegasamgöngum og verkstöðum, loftgæði batna og um er að ræða mikilsvert framlag til orkuöryggis og orkusjálfstæðis Íslendinga með því að nýta íslenska, endurnýjanlega orku. Þegar orkuskiptum í vegasamgöngum og á verkstöðum er náð að fullu styrkir það ímynd Íslands sem land hreinnar orku og andrúmslofts.
Rafmagnsvörubílar skapa að auki margvíslegan annan ávinning með betra vinnuumhverfi fyrir bílstjóra með minni titring og hávaða, lægra og stöðugra orkuverð lækkar rekstrarkostnað og orkuáfylling á starfsstöðvum fyrirtækja sparar tíma og fjármuni. Einnig er mögulegt að bæta nýtingu bílanna þar sem þjónustutími er styttri og mögulegur nýtingartími er lengri í þéttbýli vegna minni hávaða og mengunar.
Áralöng reynsla Volvo samsteypunnar í framleiðslu rafmagns atvinnubíla og rafmagns vinnuvéla
Volvo samsteypan hóf framleiðslu rafmagnsstrætisvagna á árinu 2017, árið 2019 hófst framleiðsla á rafmagnsvörubílum og framleiðsla rafmagnsvinnuvéla hófst árið 2021. Þessi þróun og framleiðsla hefur byggt upp mikla reynslu, þekkingu og gæði innan samsteypunnar á þessari nýju tækni. Það leiddi til þess að árið 2022 hóf Volvo Trucks fjöldaframleiðslu á rafmagnsvörubílum, fyrstur alþjóðlegra vörubílaframleiðenda, og hefur nú afhent um 6.000 rafmagnsvörubíla í 42 löndum og sex heimshálfum og meðal annars er fjöldi rafmagnsvörubíla kominn til Íslands og byrjaðir að keyra á íslensku rafmagni ásamt því að nokkrar rafmagns vinnuvélar eru komnar í notkun á Íslandi.
Volvo Trucks býður nú alla sína vörubíla í rafmagnsútfærslu, sérstaklega hannaða fyrir þungaflutninga og fyrir verklegar framkvæmdir með ótrúlega lágan orkukostnað. Þeir eru einstaklega hljóðlátir fyrir bílstjóra og hvað varðar hávaða í umhverfi, losa engan koltvísýring við akstur og eru með leyfða heildarþyngd allt að 50 tonn.
Volvo rafmagnsvinnuvélar eru til í smágröfu útfærslu, minni- og meðalstórum hjólaskóflum, sem valtarar og væntanleg er rafknúin 23 tonna beltagrafa, EC230, á nýju ári.
Volvo EC230 rafknúna beltagrafan sem væntanleg er á nýju ári.
Horfðu á myndband um nýja rafknúna Volvo EC230 beltagröfu
Sérfræðiþekking Veltis í rafmagns atvinnubílum og atvinnutækjum
Veltir og Brimborg hafa verið í fararbroddi bíla- og tækjaumboða í rafknúnum ökutækjum og rafknúnum vinnuvélum og lagt mikið í þjálfun starfsmanna og uppbyggingu búnaðar til þjónustu þeirra auk uppbyggingar á hleðsluinnviðum sem henta vörubílum sérstaklega. Það tryggir hátt þjónustustig og framúrskarandi nýtingartíma rafknúinna atvinnubíla.